Thursday, August 11, 2005

Tíminn er eins og klukka

Klukkurnar á Landspítalanum biluðu allar sem ein í fyrradag. Þegar ég mætti í vinnuna þá var klukkan sem mætti mér hálf sjö. Fékk sömu tilfinningu og þegar ég hafði vaknað kl hálf sjö einhvern tímann í grunnskóla úti á landi og ætt út í snjó og bil, því þá var ég samviskusöm og vildi ekki fá seint í kladdann,fannst skrýtið að enginn væri á ferli en þá hafði ég auðvitað litið vitlaust á klukkuna. Stimpilklukkan kippti mér niður úr snjónum með sínum "rétta" tíma, óþolandi rútínuvinnu fylgir alltaf einhvað eins niðurdrepandi og stimpilklukka og af hverju þarf hún að tala? Kannski eru einmanna sálir þarna úti sem líta á stimpilklukkumanninn sem vin sinn. Vona ekki samt. Eftir því sem ég gekk lengra eftir ganginum tók ég eftir því að klukkan var hálf 5 og á hæðinni fyrir ofan var hún hálf 11. Tíminn þennan dag virtist algjörlega afstæður og klukkurnar virtust eiga sitt eigið líf og lifðu samkvæmt sinni eigin innri klukku. Hver sló á sínum hraða og tóku sér pásur þegar þeim sýndist svo. Komst ekki hjá því að hugsa að ef til vill voru þær bara í sumarfríi og hver nennir að vakna fyrir hádegi þá? Ég var náttúrulega ennþá í sumarfríi í hugsunum og hreyfingum, hreyfði mig í takt við klukkuna sem var í fríi og hugsaði í takt við klukkuna inní búrinu mínu sem var alveg stopp. Þennan dag var fólk allavega ekki uppiskroppa með umræðuefni. Allir voru að tala um klukkuruglið mikla. Hvað var eiginlega að gerast? Heyrði ég eina konu segja og þá sagði önnur að þær væru samtengdar og eitthvað hafi bilað sem stjórnaði þeim öllum. Þá áttaði ég mig á því að það eru til tvenns konar fólk í þessum heimi, fólk sem spyr og fólk sem svarar. Og fólkið sem spyr býst við öllu, öll svör eru möguleg og heimurinn er alltaf að koma á óvart, ímyndunaraflið og ástríðan er það sem knýr það áfram og fólkið sem svarar veit allt, allt er eins og það er og hið ómögulega er ómögulegt, skynsemi og reglur er það sem knýr það áfram. Þannig að klukkurnar voru að spyrja í dag en ekki svara. Þær leyfðu sér að stoppa, fljúga áfram í bullandi ótakti eða haga sér eins og geðhvarfasjúklingar.Á þessum tímapunkti var ég samt aðallega að hafa áhyggjur af hádegistímanum mínum. Garnirnar gauluðu, sem sagði mér að klukkan væri 12. Hver þarf á klukku að halda þegar hann er svangur?

4 comments:

Anonymous said...

ég vildi að stympilklukkan mín myndi tala við mig

Anonymous said...

já, reyndi að tala við mína stympilklukku um daginn og hún sagði fuck off....

Anonymous said...

þú ættir að verða skáld þetta er svo flott orðað hjá þér

Anonymous said...

takk fyrir það :)