Thursday, September 07, 2006

Guðmundur Sigmundsson f. 15.apríl 1934 d.25.ágúst 2006

Elsku afi minn, mikið óskaplega á ég eftir að sakna þín þó að ég viti að nú sértu á betri stað þar sem engar þjáningar geta hertekið líkama þinn og sál.
Margar minningar um þig koma upp í hugann þegar ég hugsa til æskuáranna. Ég man eftir því að ég kallaði þig bítlaafa. Já, ég hélt lengi vel að þú hefðir verið einn af bítlunum því mér fannst þú alltaf með svo flotta bítlahárgreiðslu. Ég montaði mig mikið af þér við vini mína sem áttu bara venjulega afa með bumbu og enga sérstaka hárgreiðslu. Svo varstu alltaf svo ungur í anda og það skein alltaf í prakkarasvip í blíðlegum augunum.
Ég er eilíflega þakklát fyrir þann tíma sem við áttum saman þegar ég fékk að búa hjá þér og ömmu í Gnoðarvoginum. Þar komst ég að því að ég ætti alveg heilmikið sameiginlegt með þér og við urðum góðir vinir. Þær eru ófáar stundirnar þar sem við ræddum daginn og veginn og þá sérstaklega pólitíkina. Þar sem þú varst voru alltaf fjörugar og áhugaverðar umræður og ég er ekki frá því að ég hafi oftar en ekki verið þér sammála um svo margt.. Þú hafðir svo sterkar skoðanir og mikla réttlætiskennd, fylgdist mjög mikið með fréttum og máttir helst ekki missa af einum fréttatíma, enda kom ég aldrei að tómum kofa hjá þér varðandi eitt né neitt. Ég hef oft bölvað því að hafa ekki erft stærðfræðigreindina frá þér því þar varstu algjör snillingur.
Ég á eftir að sakna þessarra stunda með þér en fyrst og fremst mun ég geyma þær í huga mínum og hjarta og þakka fyrir að hafa fengið tíma til að njóta þeirra.Tíminn getur verið svo mikil skepna, allt í einu er sá tími sem höfðum með þér allur og mikið finnst mér það erfitt. Þú stóðst þétt við bakið á mér á erfiðu tímabili í mínu lífi og oft hef ég hugsað útí það hvað það skipti mig miklu máli og því mun aldrei gleyma. Þú varst yndislegur afi og ekki síst yndisleg manneskja sem ég mun alltaf virða.
Ég sé þig fyrir mér fyrir utan bústaðinn góða á Þingvöllum með pípuna og gleðiglampann í augunum.
Ég ætla að biðja guð að geyma þig elsku besti afi minn og veita ömmu minni og fjölskyldunni styrk á þessum erfiðu tímum.

Kristín Erla

1 comment:

Anonymous said...

Það eru ekki allir sem fá svona hjartnæma minningagrein. Bara þeir flottu með bítlagreiðslu.