Sunday, September 04, 2005

Niður með niðurhal á tímum bókmennta

Raddböndin mín fengu að njóta sín síðastliðinn fimmtudag, flissuðu feimnislega til að byrja með en gátu ekki annað en orgað af ánægju þegar leið á söngtímann.
Ohh hvað ég er fegin að það er komið haust. Þá get ég hætt að hafa áhyggjur af því að sumarið sé ALVEG AÐ VERÐA BÚIÐ og ég hef ekki gert neitt af öllu þessu sniðuga og æðislega sem ég ætlaði mér að gera í byrjun júní. Sumarið er alltaf fljótt að líða, man ekki eftir sumri sem leið hægt, nema kannski sumarið sem ég vann í rækjuvinnslunni (þið vitið öll hvað mér finnst um rækjur).

Þetta sumar verður í minnum haft sem meltinga-sumarið mikla, tónleika-sumarið milkla og bíllausa sumarið mikla.

Kvaddi meltingadeildina með hvítu brauði og mygluostum, á eftir að sakna þess að geta ekki talað um polypectomiu og papillotomiu við nokkurn mann.

Við gerðum hið óhugsanlega. Við keyptum okkur bíl. Létum undan litla kapítalistanum sem býr í okkur og smelltum okkur á golf ´98 árg. Gasalega sætur bíll með góða nærveru. Ætla samt að passa mig á því að fara ekki að persónugera hann en hann heitir Sæmundur og var Austin Mini í fyrra lífi.

Nú þarf ég alvarlega að takmarka tölvunotkunina hjá mér, hef t.d. varla getað litið augun af litla lappanum mínum alla helgina. Er búin að horfa á tvær seríur af sex and the city og nokkrar bíómyndir. Mér líður illa ef ég er ekki að downloada einhverju. Held ég sé niðurhals fíkill. En nú þegar bókmenntafræðin byrjar þá þarf ég víst að lesa eitthvað, hef ég heyrt, og þá verð ég að láta lappa í friði.

Jæja, fyrsti háskóladagurinn á morgun, kemur fljótlega í ljós ef þetta er eitthvað fyrir kerluna, ef ég þekki mig rétt, en þangað til ætla ég að vera bjartsýnis kerla og megrunar kerla og niðurhalslausa kerla.

2 comments:

Anonymous said...

þú ert sexý

Anonymous said...

nei, þú ert sexý, litlirass :)