Friday, September 29, 2006

...Vér mótmælum öll...


Mér líður eins og ég sé stödd í gjörningalandinu mikla. Fór í mótmælagöngu Ómars Ragnarssonar í vikunni og varð voðalega hissa á fjöldanum. Jidúdda hef aldrei séð annan eins fjölda samankomin á íslandi til að mótmæla og þetta voru ekki bara hippar og mh -ingar og vinstri grænir! Þarna var allur skalinn af fólki. Samt finnst mér alltaf hálf furðuleg stemmingin í íslenskum mótmælagöngum. Veit ekki hvað það er en einhvern veginn finnst mér eins og fólk sé svona hálf vandræðalegt. Sona við erum að mótmæla en samt erum við eiginlega bara á röltinu hérna að ræða um veðrið eða eikkað. Ekkert almennilegt fútt í þessu! Samt kom almennilegt fútt í þetta þegar Ómar hélt ræðuna sína niðrá Austurvelli! Ég stóð mig að því að klökkna ítrekað og hrópa eins og ég væri á samkomu hjá krossinum. Ef ég væri í sértrúarsöfnuði þá vildi ég vera í sértrúarsöfnuðinum hans Ómars. Vá hvað ég er reið útí þessa kárahnjúkavirkjun ekki bara útí virkjunina sjálfa heldur ósvífni ráðamanna Íslands sem vita að þeir komast upp með nánast hvað sem er því þjóðin er svo föst inní vítahring þess að vinna fyrir skuldunum og jeppanum og matnum að hún hefur ekki orku til að mótmæla. En nú er öldin önnur. Héðan í frá ætla íslendingar að mótmæla þegar þeim ofbýður mikilmennskubrjálæði stjórnvalda og Ómar er maðurinn sem mun sjá um að skipuleggja herlegheitin. Ég er tilbúin með spjöldin til að mótmæla því að Árni Johnsen er á leiðinni aftur í stjórnmál og að sakirinar gegn honum voru felldar niður!! Er reyndar aðeins of seint í rassinn gripið með það en það þýðir ekki að hugsa svoleiðis, bara að mótmæla öllu óréttlæti og hingað og ekki lengra!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

Svo hinn gjörningurinn, slökkt'á ljósunum og horfðu á stjörnurnar, var í gær. Ég þekki konu sem sagðist reyndar ætla að kveikja á öllum ljósunum í íbúðinni sinni til að mótmæla þessu en það hlýtur að vera afleiðining nýtilkomins mótmælendaæðis sem skekur landann. eníhú þá slökkti ég á ljósunum því ég er kind sem fylgir hjörðinni sinni og fór út og labbaði um hverfið og það var ca. slökkt í öðru hverju húsi. Sem þýðir að 50% hverfisins eru kindurm, hinir eru bara myrkfælnir. Sáum engar stjörnur þetta kvöld en fullt af áttavilltum kindum sem ráfuðu um göturnar eins og uppvakningar. Þetta var gaman. Hressandi bara. Já, ég myndi slökkva aftur á ljósunum að ári, held það bara. ´

jæja, ég er komin með vinnu. Já, ég sagði ykkur þarna úti að ég yrði komin með vinnu fyrir mánudaginn 2.okt, sama hvað það kostaði. hehe. Er að fara í draumadjobbið, er að fara að bera út póst, s.s. fæ borgað fyrir að hreyfa mig. Ekki amalegt það. En þessi vinna hentar örugglega vel með söngnum. Get raulað lögin mín í hausnum á meðan ég geng um göturnar og gæjist í lúgur. Svo ætla ég að vera með mp3 spilarann minn í eyrunum og perralúkk í augunum :P jább held það bara (uppáhalds frasinn minn þessa stundina).

Er komin með nýja fartölvu. Takk Joey bró :) Var komin með fráhvarfseinkenni á háu stigi. Sprúðlandi fínt að geta downlodað aftur.

Friday, September 15, 2006



Vinkonuknús!














Miðaleikurinn klikkar ekki þegar myndavélin er í spilinu ;)







...Where everybody knows your name bamm bamm bamm, and their always glad you came bamm bamm bamm, you wanna be where everybody knows your name......


Tuesday, September 12, 2006

Sumri hallar hausta fer

Það er komið haust.Laufin eru farin að visna á trjám og þau lauf sem hafa fallið
alltof snemma liggja einmanna á stéttum og í grænum görðum sem bíða þess eins að haustið blási endanlega sinn marglita dóm yfir allt. Mér finnst haustin yfirleitt frábær tími því haustin eru tími breytinga en ekki eru allar breytingar okkur í hag. Það er eitthvað svo tómlegt loftið þetta haust. Vindurinn er ekki hlæjandi og hvíslandi leyndarmál um framtíðina, hann er kaldur og hæðist að okkur sem stöndum og horfum á einmanna laufblöð með ótal spurningar í augunum.
Það er komið haust

Thursday, September 07, 2006

Guðmundur Sigmundsson f. 15.apríl 1934 d.25.ágúst 2006

Elsku afi minn, mikið óskaplega á ég eftir að sakna þín þó að ég viti að nú sértu á betri stað þar sem engar þjáningar geta hertekið líkama þinn og sál.
Margar minningar um þig koma upp í hugann þegar ég hugsa til æskuáranna. Ég man eftir því að ég kallaði þig bítlaafa. Já, ég hélt lengi vel að þú hefðir verið einn af bítlunum því mér fannst þú alltaf með svo flotta bítlahárgreiðslu. Ég montaði mig mikið af þér við vini mína sem áttu bara venjulega afa með bumbu og enga sérstaka hárgreiðslu. Svo varstu alltaf svo ungur í anda og það skein alltaf í prakkarasvip í blíðlegum augunum.
Ég er eilíflega þakklát fyrir þann tíma sem við áttum saman þegar ég fékk að búa hjá þér og ömmu í Gnoðarvoginum. Þar komst ég að því að ég ætti alveg heilmikið sameiginlegt með þér og við urðum góðir vinir. Þær eru ófáar stundirnar þar sem við ræddum daginn og veginn og þá sérstaklega pólitíkina. Þar sem þú varst voru alltaf fjörugar og áhugaverðar umræður og ég er ekki frá því að ég hafi oftar en ekki verið þér sammála um svo margt.. Þú hafðir svo sterkar skoðanir og mikla réttlætiskennd, fylgdist mjög mikið með fréttum og máttir helst ekki missa af einum fréttatíma, enda kom ég aldrei að tómum kofa hjá þér varðandi eitt né neitt. Ég hef oft bölvað því að hafa ekki erft stærðfræðigreindina frá þér því þar varstu algjör snillingur.
Ég á eftir að sakna þessarra stunda með þér en fyrst og fremst mun ég geyma þær í huga mínum og hjarta og þakka fyrir að hafa fengið tíma til að njóta þeirra.Tíminn getur verið svo mikil skepna, allt í einu er sá tími sem höfðum með þér allur og mikið finnst mér það erfitt. Þú stóðst þétt við bakið á mér á erfiðu tímabili í mínu lífi og oft hef ég hugsað útí það hvað það skipti mig miklu máli og því mun aldrei gleyma. Þú varst yndislegur afi og ekki síst yndisleg manneskja sem ég mun alltaf virða.
Ég sé þig fyrir mér fyrir utan bústaðinn góða á Þingvöllum með pípuna og gleðiglampann í augunum.
Ég ætla að biðja guð að geyma þig elsku besti afi minn og veita ömmu minni og fjölskyldunni styrk á þessum erfiðu tímum.

Kristín Erla